Færsluflokkur: Bloggar

Þetta er augljós snilld

Ekki skil ég þá sem kvarta yfir þessari nýung. Þetta er skynsamleg og smart lausn á sívaxandi vanda. Núna erum við með fjöldan allan af útlendingum sem gamla fólkið getur hvort eð er ekki talað við því sé ég ekki muninn. Sjálfsagt sama fólkið sem vælir yfir því en vitanlega ekki tilbúið sjálft að vinna þessi störf fyrir lítil sem engin laun.

Ég held að þetta muni hjálpa fjölmörgum að búa lengur á eigin heimili því með þessu verður daglegt erfiði (þvottur, þrif og slíkt) leikur einn fyrir lágmarks fé.

Ég fæ mér pottþétt einn svona þvottaróbót, og ég ætla ekki að bíða fram í ellina með það. Hvar eru þeir til sölu?


mbl.is Vélmenni í umönnunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn bjór er alltaf í belti

Það vita allir aðdáendur ölsins að kassan ber að hafa í belti þegar er ferðast milli staða. Enda ekki gott að drekka bjórinn ef hann hefur fengið flugferð vegna áreksturs eða nauðhemlunar.

Hitt er annað mál að konan hefði nú átt að sjá að barn hennar er ekki síður mikilvægt og full þörf á beltinu. Uss uss... þessir kanar....


mbl.is Bjór í belti en ekki barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði flugfélögin standa sig illa

Ég hef flogið reglulega bæði með Express og Icelandair og þegar eitthvað bregður út af þá standa þau sig bæði skelfilega. Fólk fær alla jafna ekkert að vita hvað er í gangi, fólk fær ekkert að vita hvenær er áætlað að flug hefjist að nýju. Í fyrra lenti ég í 10 tíma seinkun og aðeins brot af farþegunum var látinn vita að þeir gætu snætt á kostnað Express í flugteríunni. Meira að segja þeir skynsömu einstaklingar sem hafa vit á að leita í þjónustuborðið fá oftast engin svör þar vegna þess að flugfélögin hafa ekki gefið út neinar upplýsingar til vallarstarfsmanna.

Stjórnendur á þessum bæjum hafa greinilega ekki vit á því að reka góða stefnu í þjónustumálum.


mbl.is Eyddu nóttinni í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Media & Communication Masterclass

Ákvað að skjóta hérna inn smá ferðasögu af ævintýralegri ferði minni til Grikklands á námskeið á vegum JCI Grikklandi og Evrópusambandsins.

Það var ákveðið með mjög stuttum fyrirvara að skella sér til Grikklands og því fékk ég ekki beinlínis skemmtilegasta flugið... Ísland - London - Amsterdam - Aþena : Ég lagði af stað klukkan 5 að morgni á íslenskum tíma og var kominn upp á hótel í Aþenu klukkan 00:30 - yfir 20 klukkustunda þvælingur.

Þriðjudagur
Ég var pínulítið stressaður á leiðinni því það mátti ekkert fara úrskeiðis í öllum þessum flugvélum.. og viti menn - á miðri leiðinni frá London til Amsterdam segir flugstjórinn í kallkerfið: "Farþegi á leið til Riga og farþegi á leið til Aþenu, þið fáið ekki að fara í tengiflugið ykkar í Amsterdam, þetta er vegna 15 mínútna seinkunar, vinsamlega hafið samband við skrifstofu okkar á flugvellinum!"

Ég auðvitað panica... ekkert flug til Aþenu, hvað nú. Ég talaði við flugþjóninn og hann sagði mér að það væri nú ekki svo slæmt að gista eina nótt í Amster en ég skildi samt freista gæfunnar. Þ.e. hlaupa eins og óður maður, reyna að ná fluginu, fara svo bara á hnén og biðjast vægðar og segja þeim að farangurinn megi bara koma til Aþenu á morgun! Við lendum og mikið svakalega fór seinagangur farþega í taugarnar á mér.. ég var gjörsamlega að fríka út en komst þó loksins út úr vélinni.

Flugþjóninn hafði sýnt mér á korti hvar í flugstöðinni við kæmum að og hvert ég þyrfti að hlaupa í næsta flug og á kortinu var þetta nánast hlið við hlið... nokkrir metrar bara.
Ég var búinn að gleyma að Schiphol er einn af stærstu flugvöllum heims og ég hljóp... og ég hljóp... og ég hljóp... vá þetta var langt. Ég hljóp í 10-15 mínútur áður en ég kom að einhverju tollhliði þar sem ég þurfi og að láta gegnumlýsa farangurinn og viti menn... að sjálfsögðu þurfti tollarinn að skoða allt í töskunni.. rífa uppúr og tefja mig enn fregar.
Svo hljóp ég af stað aftur, kom að brottfararhliðinu, hlaupandi, sveittur, móður og másandi og náði að stynja upp: "Hi, I´m the missing passanger arriving from London, please don't leave me behind!" Setti upp hvolpasvipinn... á hnjánum og baðst vægðar. Og ég fékk að fara með... og farangurinn minn líka. Sennilega af því að ég trúði því alltaf innst inni að fengi farið :)

Miðvikudagur
Ég sofið út þar sem engin dagskrá var fyrr en á hádegi. Það var erfið ákvörðun að sofa frameftir þar sem það kitlaði að vakna snemma og skoða borgina, ég átti seinna eftir að verða mjög feginn að hafa valið svefninn.

Hópurinn hittist klukkan eitt, 36 hausar frá 24 löndum. Okkur var skipt í 6 hópa og tryggt að í hverjum hóp væri bara einn frá hverju landi og að enginn þekktist við borðið.
Minn hópur leit svona út:
Lína frá Líbanon
Andy frá Bretlandi
Davinia frá Möltu
Emanuele frá Ítalíu
Sören frá Danmörku
og svo ég

Eftir námskeiðishald og fjölmargar æfingar var haldið út. Það var bundið fyrir augun á okkur og við látin labba á Akropolis hæð. Ég get semsagt sagt ykkur frá því að ég fór til Aþenu og fór á Akropolishæð.. ég bara sá hana ekki þar sem það var bundið fyrir augun á mér! :)
Við gerðum fjölmargar skemmtilegar æfingar í kvöldrökkrinu en ein þeirra kostaði mig svakalegar blóðnasir eftir að ein stúlkan í hópnum rak óvart olnbogan í smettið á mér. Að sjálfsögðu fórum við svo stuttlega út á lífið og komum upp á hótel um eitt leytið. Þá átti ég eftir að vinna dálítið og komst því ekki í háttinn fyrr en um 3 leytið. Ég náði því ekki nema 5 tíma svefni um nóttina.

Fimmtudagur
Rosalega dagskrá framundan
Fyrir hádegi var farið í Vörumerki: Branding, marketin and consistent communication
Í hádeginu var svo farið í Samskiptatækni og leiðir til að fyrirbyggja misskilning
Eftir hádegi var mjög þungur fyrir marga en þá var farið í Samskipti við fjölmiðla:
PR and getting in touch with the MEdia
The sasics of PR writing
Organizing sucessful events (press conferences, shows, etc..)
og svo var farið í verklegar æfingar

Um kvöldið var svokölluð Grísk veisla sem var hreint út sagt stórkostleg. Matur og vín flæddu um allt en Constantín vinur minn frá Þýskalandi kvartaði sáran undan því að Grikkir troða osti í allan mat! Eftir mat og drykkju fram yfir miðnætti var farið á næsta bar... og svo næsta bar... og svo framvegis þar til klukkan var orðin allt of margt og við enduðum ekki upp á hóteli fyrr en um hálf sex að morgni og náðum því ekki nema 3 tíma svefni

Föstudagur
Þá var loksins komið að því að minnst væri á JCI en dagskráin fyrir hádegi var tvíþætt
Fyrst var farið í "The JCI Brand" þar sem farið var yfir meðhöndlun á logo-inu, litanotkun, letur og fleira í þeim dúr.
Seinni hlutinn snerist svo um að kunna að kynna JCI, vita hvað er í boði og hvernig er best að kynna það.

Eftir hádegi kynntumst við stórkostlegum manni að nafni Giorgos Karathanos en maður er algjör guð þegar kemur að líkamstjáningu. Við eyddum einhverjum 6-7 klukkustundum í að þjálfa hópinn fyrir framan videocameru. Til þess að kenna okkur hvað má og hvað má ekki fyrir framan myndavélina. Einnig var mikið farið í það hvernig maður kemur í veg fyrir að fjölmiðlar/blaðamaðurinn geti slitið það sem maður segir úr samhengi. Þetta var einn skemmtilegasti parturinn fannst mér. Miklar pælingar og djúp hugsun á bak við hvert orð.

Um kvöldið þurftum við svo að fara að vinna að hópverkefnunum okkar. Okkur hafði verið sett eftirfarandi verkefni: Þið eigið að halda stóran blaðamannafund á laugardag um efni að eigin vali. Þið þurfið að útbúa fréttatilkynningu, Press Kit og setja upp fundinn.
Í mínum hóp lagði ég til eftirfarandi:
Við erum að fara að halda risastórt, alþjóðlegt, celebrity golfmót þar sem umsóknir frá almennum borgurum verða dregnar upp úr hatti og 6 heppnir fá að spila með 6 stjörnum. Stjörnurnar sem við völdum voru: David Beckham, Will Smith, Jack Nicklous, Thomas Bjorn, Colin Montgomerie og Tiger Woods. Þetta ætluðum við að segja fjöldmiðlum frá, þ.e. tilkynna þeim hvaða stjörnur tækju þátt í mótinu okkar.

Við lögðum gríðarlega mikið á okkur og ákváðum strax í upphafi að við myndum vinna eftir áætlum sem við kölluðum "The Winning Strategy" og hún var 100%. Einn aðalleiðbeinandinn kom til okkar klukkum 3 um nóttina og hvatti okkur til þess að fara nú í háttinn með orðunum að 90% væri alveg nóg. Ég fullvissaði hann hinsvegar um það að við hefðum ekki sett okkur markmið til þess að standa ekki við þau! Hann brosti og sagði: "Jæja, það verður gaman að sjá hvað þið komið með á morgun"

Hópurinn okkar tíndist svo smátt og smátt í háttinn en við Sören fórum síðastir, ég um hálf 6 og um hálf 7.

Laugardagur
Eftir aðeins 2ja tíma svefn þurfti ég að rísa á fætur því við höfðum ákveðið að hittast klukkan 8, vel étin og klár í slaginn. Það gaf okkur klukkutíma fyrir lokarennsli því Blaðamannafundirnir áttu að hefjast klukkan 9 stundvíslega og allir áttu að sitja í salnum og fylgjast með hinum. Bannað að fara afsíða og undirbúa sig enn frekar.

Hóparnir voru sex og það stóðu sig allir mjög vel og var gaman að sjá fjölbreytnina í því sem menn tóku sér fyrir hendur.

Hópur 1
Kynnti Sparkling, Evrópuþing JCI í Turku Finnlandi og gerði það virkilega vel!
Hópur 2
Kynnti samstarf JCI Grikklandi og JFK Library foundation og sameiginleg námskeið, flott pæling
Hópur 3
Kynnti Evrópuþing í Búdapest 2009 og kynnti fyrirhugaða umsókn Grikklands um að sækjast eftir því að fá að halda þingið árið 2010. Skemmtileg atriði en pínu ruglingslegt þar sem menn áttuðu sig seint á því hvort það var verið að auglýsa Búdapest eða Aþenu
Hópur 4
International Celebrity Golf Tournament - Hópurinn minn
Hópur 5
Fjáröflunaruppboð til að styrja tækjakaup fyrir Barnaspítala sem sérhæfir sig í hjartasjúkdómum og á sama tíma kynnt samstarf við Siemens sem veitir tækin á botnverði - Smart atriði og sniðugt hjá þeim að vera með 12 ára stelpu sem var batnað á staðnum. Blaðamönnum tókst þó að draga upp einhvern Seimens skandal í spurning og gjörsamlega óðu yfir hópinn.
Hópur 6
JCI Aþenu í Samstarf við Borgaryfirvöld og einn viðskiptamógul um að setja á fót ókeypis námskeið fyrir atvinnulausa til að auka möguleika þeirra á að fá starf eða stofna eigið fyrirtæki. - Virkilega flott útfært og Ivana var sérklega góð í hlutverki borgarstjórans

Eftir alla blaðamannafundina fór fram svokallað "Feedback session" þar sem farið var yfir gott og slæmt hjá öllum. Við Andrew fengum sérstak hól fyrir framúrskarandi ræður.
Auk þess þá sagði einn af leiðbeinendunum: "Einn blaðamannafundurinn hér í dag var alveg hreint ótrúlega góður, fullkominn, alveg 100%. Hann var það góður að þetta hefði vel getið verið 'live' útsending um allan heim með alvöru blaðamönnum og á vegum einhvers stórfyrirtækis, enginn hefði séð muninn. Ég ætla ekki að segja ykkur hvaða fundur það var, bara leyfa ykkur að hugsa um það sjálf"

Síðar um kvöldið þegar allir voru komnir í glas þá gegnum við á þennan leiðbeinanda og hann sagði við okkur Sören: "Strákar, auðvitað voru það þið"

Eftir feedback hlutann þá settumst við öll saman í hring á gólfið og áttum notalega stund saman. Það var alveg hreint útrúlegt hve sterk bönd höfðu myndast á þessum stutta tíma í Aþenu. Þessi stund var mjög tilfinningaþrunginn, sumir felldu tár og ein stúlkan var svo hræð að hún þurfti að fara afsíðis grátandi. Mögnuð upplifum.

Um kvöldið var svo Gala kvöldverður og útskrift þar sem við fengum skírteinin okkar. Farið var á Traditional Grískan stað sem var mjög sérstakur. Við fengum ekki gaffla til að borða með, bara skeið og hníf takk fyrir. Undarlegir þessi Grikkir. 

 Það kom okkur pínulítið á óvart að ekki var tilkynnt um sigurvegara dagsins en slíkt hefur verið gerið áður á þessu námskeiði. Við gegnum því mjög fast á eftir þjálfurunum með það. Ole gekk afsíðis með Anders og Yiannis, kom til baka og sagði "við höfum ákveðið að segja ykkur ekki frá því" en Sören svaraði: "Láttu ekki svona, þú veist að við verðum að vita þetta og hættum ekki fyrr en við vitum þetta!" Þá hló hann (Ole) mikið og sagði: "Strákar, haldið þið virkilega að einhver sé í vafa um að þið sigruðu? Þið rúlluðuð þessu upp með 100% árangri!" - Við skálum með sigurbros á vör og vorum sko nú fyrst tilbúnir í djammið! Það var vitanlega trallað inn í nóttina en við vorum þó komin á hótelið um 2 leytið þar sem sumir þurftu að fara að pakka.

Ég þurfti að taka leigubíl út á flugvöll klukkan 3 og hugsaði með mér á flugvellinum, vá sunnudagur og ég er bara búinn að sofa í 9 eða 10 tíma síðan á miðvikudag.
Ekki undarlegt að ég hafi dottað í flugvél og dottað í rútu og dottað á flugvelli og dottað í leigubíl... mesta furða að ég skuli hafa komist heim en ferðalagið heim tók yfir 22 klukkutíma..úff

Niðurstaðan af þessari ferð er þessi:
Besta námskeið sem ég hef farið á!
Skemmtilegasta námskeið sem ég hef farið á!
Eitt af gagnlegri námskeiðum sem ég hef farið á!
Vá hvað það er gaman að kynnast öllu þessu fólki!

...það er ljóst að ævintýri mín erlendis eru bara rétt að byrja því ég mun sko nota hvert einasta tækifæri til að komast í svona. Ég ætla að skella mér á Evrópuþing í Turka, Finnlandi og á European Acadamy í haust og hver veit hvað fleira.

Lífið er yndislegt og JCI veitir manni tækifærin sem birtast manni í draumum.


Öfgafullt eða réttlætanlegt?

Eins mikið og ég er á móti öllu sem heitir "reglur fyrir internet" og er sérstaklega á móti öllu því sem felur í sér að fylgst sé með netnotkun hvers og eins þá á ég tiltölulega auðvelt með að skilja forsendur laganna.

Margir hafa hlaupið upp til handa og fóta og segja þetta brot á mannréttindum, það sé ekki hægt að svipta hinn almenna borgara aðgangi að tölvupósti og þeim nauðsynlegu uppl. sem liggja á netinu. Ég hef séð og heyrt alls kyns samlíkingar sem mér fannst flestar vera kjánalegar og vitlaust framsettar. Því ætla ég að setja mínar eigin samlíkingar fram (gegn betri vitund minni) sem sýna að hugsunin á bak við lögin er ekki röng.

Lögin segja einfaldlega: ef þú brýtur illa af þér verður sviptur aðgangi að netinu.

Til samanburðar:
Ef þú brýtur illa af þér í umferðinni þá ertu sviptur réttindum til að taka þátt í "umferðarmenningunni"
Ef þú ferð milli verslana og stelur reglulega þá að lokum verðurðu settur í steininn, þ.e. sviptur frelsinu til að umgangast aðra, umgangast verslanir og meira til
Ef þú hagar þér illa inni á skemmtistað þá er þér hent út og þér meinaður aðgangur.
Ef þú brýtur af þér og hagar þér eins og fífl í skóla endar með því að þér verður vísað úr skólanum og þér meinaður aðgangur.
Ef þú brýtur illa af þér erlendis eru góðar líkur á því að þér verði vísað úr landi og þér framvegis meinað um aðgang að viðkomandi landi.
Ef þú ert staðinn að því að brjóta lyfjareglur í íþróttum er þér vísað úr sportinu og þér bannað að taka þátt jafnvel árum saman.

...er það þá óeðlilegt að einhverjir vilji setja samskonar reglur á internetið?

Ég velti því hinsvegar fyrir mér rétt eins og Garðar Valur hvernig hægt sé að sanna að meintur glæpamaður hafi vitað að hann hafi gerst brotlegur. Ef einhver er beinlínis að bjóða mér að niðurhala einhverju efni, hvernig get ég vitað að viðkomandi hafi stolið því? Sönnunarbyrðin er mjög erfið í þessum málum og ég tel persónulega að menn(yfirvöld) ættu að láta það algjörlega vera að eltast við þetta og setja peningana frekar í eitthvað mun þarfara.

Svo má auðvitað líka rífast um allar þær fjölmörgu rannsóknir sem sumar segja að meintur þjófnaður auki söluna á tónlist og kvikmyndum á meðan aðrar segja iðnaðinn vera að tapa á þessu.

Það eina sem mér finnst skipta máli í þessu er að tryggja að ekkert verði gert sem skerðir internetið á einn né neinn hátt.
Áframhaldandi frelsi á Internetinu er forsenda þess að það haldi áfram að dafna og blómstra eins og það hefur gert hingað til. Það er algjörlega "priceless"


mbl.is ESB íhugar að taka upp frönsk netlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýr skilaboð frá almættinu?

Ég minnist þess í óveðrinu núna að þegar að "trúboð í skólum" umræðan stóð sem hæðst kom svona óveðursskellur og börn gátu ekki farið í skólann, svona næstum því eins og almættið væri að segja okkur að fyrst það ætti að taka trúboðið út þá færu börnin bara ekkert í skólann.

Nýr meirihluti tók við í gær og almættið tryggir það að fólk yfirgefi ekki heimili sín á fyrsta starfsdegi.  Óveður og allir fastir út um allt. Framkvæmdasvið borgarinnar hefur ekki undan að moka snjó....

Skýr skilaboð?


mbl.is Fólk haldi sig heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsóknir?!

Mikið væri það nú gaman ef við ættum nágranna á mars. Ég vona svo sannarlega að þessi "vera" sem sést á myndum nasa (sem er örugglega grjór) sé einhverskonar lifandi tjáskiptavera. Þá getum á næstu árum farið í framandi sumarferðir til að skoða skrýtna liðið og menninguna á mars. Þetta yrði stórkostlega viðbót í utanlandsferðaflóruna.

Á ferðaskrifstofunni:
"Má bjóða þér að skoða innanlandsferðir, utanlandsferðir eða utanjarðarferðir?"

Spennandi... svo ekki sé meira sagt!


mbl.is Marsbúi eða garðálfur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki svo vitlaust

Það er nú bara alls ekki svo slæm hugmynd að efna til nýrra kosninga. Allt þetta kjörtímabil hefur einkennst af veiklulegum meirihlutum, lýðskrumi, vantrausti, rýtingsstungum og allir farið markvisst á bak vil alla. Held að kjósendur myndi fengir mæta á kjörstað til að fá skýrari línur í borgarmálum.

En hvað ég Hafnfirðingurinn....


mbl.is Dagur: Í dag ætti að kjósa í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg dagskrá Esjunnar

JCI Esja mun kynna dagskrá vetranins á vinnufundi í kvöld. Dagskráin hefur verið í vinnslu hjá stjórninni (og hjálparkokkum) og lítur hún einstaklega vel út. Eitt af því sem er hvað mest spennandi í dagskránni er að sjá þau 20-30 námskeið sem eru fyrihuguð. Fjölbreytnin verður því allsráðandi hjá Esjunni á þessu ári.

Á fundinum verða einnig kynntar nýjar hugmyndir á borð við Nordic Inovation, nýjungar í viðskiptaklúbbinum og mragt fleira.

Ég hvet sem flesta til að mæta á þennan fund því þarna er tækifærið til að hafa áhrif á og móta með okkur dagskrána fyrir árið.

Fundurinn verður klukkan 20:00 í húsnæði JCI Íslands, Hellusundi 3

Hlakka til að sjá sem flesta


Gróflega brotið á jafnrétti kynjanna

Mér þætti gaman að fá að vita hver viðbrögð femínista verða við því sem ég heyrði af í dag. Félagi minn hefur um nokkurt skeið verið virkur notandi á vefnum einkamal.is þar sem hann hefur verið að leita sér að kvonfangi. En þegar hann "loggaði" sig inn í gær biðu eftir honum skilaboð frá umsjónarmönnum sem voru á þessa leið:

einkalogo
"...því höfum við ákveðið að gera einkamal.is að áskriftarvef. Að erlendri fyrirmynd höfum við ákveðið að kvenmenn fái frían aðgang að vefnum en karlmenn þurfi að greiða vægt gjald. Þó geta allir skráð sig gjaldfrjálst og sett upp lýsingu af sjálfri/sjálfum sér, um leið og karlmenn vilja hefja samskipti við aðra notendur þurfa þeir skrá sig í áskrift...."

Karlmenn þurfa semsagt hér eftir að greiða 500 kr fyrir mánuðinn eða 200 kr fyrir vikuna. Konur þurfa hinsvegar ekki að greiða neitt eða 0 kr. Það gefur auga leið að þetta er brot á jafnræðisreglum fyrir utan að það að vera hreinlega ósanngjarnt.

Hvað finnst ykkur um þetta? Sanngjarn eða ósanngjarnt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband